Við og vinir okkar er ljóða og sagnakvöld sem haldið verður laugardaginn 5. desember kl. 20 að Suðurgötu 3. Tilgangurinn er að hvetja til menningarlegar fjölbreytni, samræðu milli ólíkra hópa og byggja upp öruggt rými þar sem fólk af ólíkum toga getur komið saman og notið bókmennta og lista. Einnig verður hægt að kaupa bækur úr bókasafni Samtakanna '78. Hundruðir hinsegin bóka um allt á milli himins og jarðar!

Skáldin sem koma fram:

Fyrir hlé:
Júlía Margrét Einarsdóttir
Heimir Már Pétursson
Margrét Lóa Jónsdóttir
Böðvar Björnsson
Halla Þórlaug Óskarsdóttir
Hafsteinn Himinljómi Sverrison
Þorvaldur Kristinsson

Eftir hlé:
Ásdís Óladóttir
Hringur Ásgeir Sigurðarson
Ásgerður Á. Jóhannsdóttir
Valdimar Tómasson
Ágúst Ásgeirsson
Jóna Guðbjörg Torfadóttir
Jóhann G. Thorarensen

Kynnir: Magnús Gestsson.

Öll hjartanlega velkomin. Gott aðgengi fyrir fólk með hreyfihömlun.

|

Salurinn í húsnæði okkar að Suðurgötu 3, 101 Reykjavík er sérlega hentugur til fundar- og veisluhalda. Við leigjum hann út til slíks brúks. Um er að ræða u.þ.b. 90 fm. bjartan sal á jarðhæð á besta stað í miðbæ Reykjavíkur. Salnum fylgja 60 stólar, skjávarpi, hátalari og 20 borð. Salurinn er allur nýuppgerður með nýju gólfefni, ljósum, salernisaðstöðu og eldhúsi. Hann er aðgengilegur fyrir fólk með hreyfihömlun. 

Verð fyrir veisluhöld er 50.000 kr. en 35.000 fyrir félagsfólk Samtakanna ´78. 

Verð fyrir fundarhöld er frá 15.000 kr. 

Vinsamlegast hafið samband við This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. fyrir nánari upplýsingar. 

|

Laugardaginn 21. nóvember kl. 15:35 verður opnuð sýning á málverkum eftir Þorbjörgu Höskuldsdóttur listmálara í Gallerí ´78, Suðurgötu 3, Reykjvavík. Þorbjörg er einn mikivægasti listmálari þjóðarinnar og hefur hlotið aðdáun og virðingu fyrir einstök málverk sem sýna fegurð íslenskrar náttúru frammifyrir sífelldum ágangi skipulagðrar eyðileggingar í kjölfar virkjanna og annara umhverfisspjalla. Þorbjörg getur því með sanni talist til náttúruverndarsinna í íslenskri samtímalist . Verk hennar eru mikilvægt framlag til þeirrar náttúruverndarumræðu sem fram fer um þessar mundir. Sýningin stendur til 9. janúar 2016.
Boðið verður upp á léttar veitingar. Aðgengilegt fyrir fólk með hreyfihömlun. Öll velkomin!

|

Þann 3. ágúst síðastliðinn efndu Samtökin ‘78 til nýyrðasamkeppni undir yfirskriftinni Hýryrði. Hugmyndin var að gefa almenningi tækifæri til þáttöku í íslenskun á hinsegin orðaforða. Lýst var eftir tillögum að sextán orðum í fjórum flokkum: kynhneigð, kynvitund, kyntjáning og ókyngreind frændsemisorð. Viðbrögðin við Hýryrðum 2015 voru vonum framar, en vel á fjórða hundrað tillagna barst í samkeppnina. Afrakstur samkeppninnar var kynntur formlega í kvöld, þann 16. nóvember, á Degi íslenskrar tungu.

Þau þrettán orð sem dómnefndinni þóttu skara fram úr í sínum flokkum og valdi til kynningar í kvöld eru ekki hugsuð sem endanlegt, bindandi val. Fremur eru þetta tillögur sem nú eru lagðar fram til umræðu og áframhaldandi tilraunastarfsemi. Það er einróma álit dómnefndar að orð sem notuð eru til sjálfsskilgreiningar verði að hljóta viðurkenningu frá grasrótinni sjálfri, að hóparnir vilji sjálfir nota orðin og þyki þau viðeigandi.

Dómnefndina skipuðu:

Ágústa Þorbergsdóttir málfræðingur (Málræktarsviði Árnastofnunar)
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands
Guðmunda Smári Dísuson Veigarsdóttir, fyrir hönd Kynsegin Íslands
Gyða Margrét Pétursdóttir, lektor í kynjafræði við Háskóla Íslands
María Helga Guðmundsdóttir, þýðandi
Setta María, trúnaðarráði Samtakanna ´78
Sonja Bjarnadóttir, meðstjórnandi í Q-félagi hinsegin stúdenta
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir varaformaður Trans Íslands


Í flokknum „kyntjáning“ þóttu tvær tillögur yfir enska hugtakið „androgynous“, skara fram úr:

Dulkynja þótti dómnefnd knappt og gagnsætt orð sem lýsir því á einfaldan máta þegar kyn einstaklings er ekki augljóst.
Vífguma var að mati dómnefndar falleg og ljóðræn íslenskun sem vísar í samtvinnun karl- og kvenlegra eiginleika.


Í flokki ókyngreindra frændsemisorða stóðu eftirfarandi orð upp úr:

Kærast – yfir kærasti/kærasta. Orðið er þegar komið í einhverja notkun. Dómnefndin leggur til að með hliðstæðum hætti mætti mynda orðið „unnust“ fyrir trúlofaða einstaklinga.

Bur – sonur/dóttir. Orðið „bur“ er fornt í málinu, upprunalega í karlkyni, og merkti þá sonur. Það er af sama stofni komið og „að bera“ og „barn“ og er ekki bundið karlkyni nema málfræðilega. Orðið fellur haganlega að hvorugkynsbeygingum (bur-bur-buri-burs) og má því auðveldlega taka upp í nýju málfræðilegu kyni.


Í flokki kynhneigðar spannst upp nokkur umræða um mögulegar þýðingar á hugtakinu „asexual“. Einkum voru tvær tillögur sem þóttu koma til greina: eikynhneigður og ókynhneigður. Hið síðarnefnda notar hið algenga forskeyti ó- og er að því leyti bein hliðstæða við ensku fyrirmyndina. Fyrri tillagan þótti forðast þann neikvæða blæ sem er á „ó“-forskeytinu og kallast hljóðfræðilega á við ensku fyrirmyndina.


Fimm ensk hugtök í flokknum „kynvitund“ þóttu mynda hugtakafjölskyldu sem vert væri að þýða á skyldan máta: non-binary, agender, bigender, pangender, og genderfluid.

Í flokkunum bigender og genderfluid bárust skyldar tillögur sem dómnefnd þóttu sérlega áhugaverðar: tvígerva og flæðigerva. Þessar tillögur byggja báðar á viðskeytinu -gerva og vísa í orðið kyngervi (e. gender). Viðskeytið -gerva hefur að auki þann kost að það kynbeygist ekki, sem er vel við hæfi þar sem verið er að fjalla um frávik frá kynjatvíhyggjunni. Þessi orð þóttu skara fram úr í sínum flokkum og gefa fordæmi um mögulega orðmyndun í öðrum flokkum. Sem dæmi myndaði dómnefndin orðin algerva (pangender), frjálsgerva (non-binary) og eigerva/ógerva (agender) að sömu mynd og með vísun í aðrar álitlegar tillögur sem bárust í þeim flokkum.

Við þökkum öllum sem sendu inn tillögur, sem og verkefnastjórn og dómnefnd fyrir vel unnin störf.  

|

Á opnu húsi fimmtudaginn 19. nóvember kl. 20 blásum við til bókaveislu.

Gersemi fyrir grúskara, fjársjóður fyrir fynda jólasveina! Erica Pike rithöfundur fjallar um ástir karlmanna í nútíma bókmenntum og bókaútgáfu í Bandaríkjunum. Um leið hefjum við sölu á bókum úr bókasafni Samtakanna ´78. Stærstur hluti bókasafnis fór til Borgarbókasafnsins en eftir standa nokkuð hundruð titlar af eldri hinsegin bókum um allt á milli himins og jarðar sem seldar verða á slikk. Boðið verður upp á upprúllaðar og nýbakaðar pönnukökur!

Sjáumst að Suðurgötu 3. Aðgengilegt fyrir fólk með hreyfihömlun 

|

Þá er komið að því! Seinustu vikur hefur dómnefnd Hýryrða, nýyrðasamkeppni Samtakanna ‘78, setið yfir þeim fjölmörgu tillögum sem bárust í keppnina í ágúst síðastliðnum. Eftir fjölmargar yfirferðir og mikla þankaganga hefur dómnefndin komist að niðurstöðu og valið bestu nýyrðin, og mun tilkynna þau á Degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember í húsnæði Samtakanna ‘78 við Suðurgötu 3. 

Húsið opnar 19:30 en bestu orðin verða lesin upp og kynnt klukkan 20. Eftir það verður opið hús, boðið upp á goskenndar veitingar og tækifæri til að kynna sér aðra viðburði og verkefni Samtakanna ‘78. Húsnæðið er aðgengilegt fyrir fólk með hreyfihömlun.

|

Samtökin ´78 boða til félagsfundar að hausti þriðjudaginn 24. nóvember kl. 20 að Suðurgötu 3. Að venju verður lögð fram drög að fjárhagsáætlun næsta árs.
Þá tilkynnist einnig að BDSM Ísland hefur formlega sótt um aðild að Samtökunum ´78. Aðildarumsóknin verður tekin fyrir á aðalfundi í mars á næsta ári en á þessum félagsfundi munum við fá kynningu á umsókninni frá formanni félagsins, Magnúsi Hákonarsyni.
Rétt til setu á félagsfundi hefur félagsfólk sem borgað hefur árgjöld fyrir árið 2015.
Húsnæðið er aðgengilegt fyrir fólk með hreyfihömlun. 

|

Við tilkynnum með ánægju að nú er hægt að fá geisladiskinn Nóg til frammi með Hljómsveitinni Evu til sölu hjá okkur á Suðurgötu 3 og einnig diskana Stella og Trúður í felum með Stellu Hauks. Fyrri diskur Stellu sem nefndur er eftir henni sjálfri hefur verið ófáanlegur um árabil og Trúður í felum aðeins fáanlegur í Vestmannaeyjum. Stella Hauks var fyrsta söngvaskáldið hérlendis til að yrkja um ástir kvenna til kynsytra sinna og því brautryðjandi á sínu sviði. Þetta er því mikill happafengur fyrir tónlistarunnendur. Þessa tónlist finnur þú ekki á Spotify!
Hægt er að kaupa diskana hjá okkur alla virka daga frá kl. 13-16 eða á opnum húsum sem eru öll fimmtudagskvöld frá kl. 20-23. 

|

Samtökin hafa sent inn umsögn um frumvarp til staðgöngumæðrunar. Rétt er að minna á að Samtökin '78 hafa tekið þá afstöðu að taka ekki afstöðu til staðgöngumæðrunar þar sem málið er umdeilt og um hana eru margar mismunandi skoðanir meðal félagsmanna. Samtökin hafa bent á að réttindi eins hóps skulu aldrei ganga á mannréttindi annars. Þó teljum við mikilvægt að tryggt sé að lög um staðgöngumæðrun mismuni ekki, verði þau að veruleika, þá t.d. á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar eða kyneinkenna. Því var farið yfir frumvarpið og hér lögð fram umsögn í þeim tilgangi að koma í veg fyrir mismunun og útilokun (beina og óbeina).


Samtökin ’78 gera athugasemdir við 10. grein frumvarspsins sem fjallar um notkun kynfruma og fósturvísa. Þar kemur fram að annað væntanlegra foreldra þurfi að leggja til kynfrumur og að einhleypur einstaklingur þurfi að gera slíkt hið sama. Það getur vissulega verið svo innan hvaða hóps sem er (hinsegin eða ekki) að hvorugur aðili búi yfir kynfrumum sem nýtast til barneigna. Fyrir suma innan þess hóps eru ættleiðingar raunverulegur möguleiki en ekki fyrir aðra. Hinsegin fólk og aðrir hópar (t.d. fatlað fólk) hafa ekkert eða verulega skert aðgengi (eftir atvikum) að ættleiðingum. Að auki eru þessir hópar líklegri til að geta ekki lagt fram kynfrumur. Má þar sérstaklega benda á stöðu transfólks sem hefur farið í gegnum kynleiðréttingarferli, en í mörgum tilfellum útilokar það barneignir og framleiðslu einstaklinga á kynfrumum. Einnig er intersex fólk mjög ólíklegt til að geta lagt fram kynfrumur, í sumum tilfellum vegna aðgerða sem þau hafa sætt sem börn. Umboðsmaður barna hefur ályktað að margar af þeim aðgerðum séu mannréttindabrot. Við bendum því á að sá hópur sem er hvað líklegastur til að geta ekki lagt fram kynfrumur er einnig sá hópur sem á hvað erfiðast með aðgengi að ættleiðingum. Á þann hátt mismunar frumvarpið á óbeinan hátt hinsegin fólki.


Rökin fyrir því að annað foreldrið verði að leggja til kynfrumur telja Samtökin ‘78 afar veik til móts við þá hagsmuni sem raktir hafa verið hér á undan. Í greinargerð með ákvæðinu segir: „Af þessu skilyrði leiðir að lagt er til að barn sem verður til við stað­göngumæðrun í velgjörðarskyni eigi alltaf líffræðilega tengingu við væntanlegt foreldri sem þykir auka líkur á að væntanlegir foreldrar standi við skuldbindingu sína um að ganga barni í foreldrastað.” Ekki er vísað til neinna rannsókna sem sýna að fólk sem ekki á annan kost en að fá gefins bæði egg og sáðfrumu sé ólíklegra til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart barninu. Frumvarpið er litað af þeirri skoðun að líffræðileg tengsl foreldra við börn sín séu æðri annarskonar tengingum. Samtökin ‘78 hljóta að mótmæla slíkum ályktunum enda ganga þær í berhögg við hagsmuni fjölmargra félagsmanna okkar. Innan hinsegin samfélagsins eru samsettar fjölskyldur algengar og fjölskyldutengsl verða iðulega til án líffræðilegs skyldleika. Það mikilvægt að kerfið styðji og viðurkenni þess konar tengsl. Frumvarp það sem hér er til umræðu gerir að okkar mati lítið úr þeim og ýtir undir yfirskipun þeirra fjölskylduforma sem mest líkjast hinu gagnkynhneigða sískynja normi þar sem líffræðileg tengsl eru ráðandi, og ýtir um leið undir undirskipun fjölskyldutengsla sem ekki grundvallast á líffræði. Af þessu leiðir að Samtökin´78 leggjast gegn frumvarpinu í þeirri mynd sem það er nú.  

|

Samtökin ´78 fagna því að ríkissaksóknari hafi lagt fyrir lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu að rannsaka mál er varða kærur samtakanna vegna ummæla sem samtökin telja að feli í sér hatursorðræðu í garð hinsegin fólks.


Forsaga málsins er sú að í apríl á þessu ári lögðu Samtökin ´78 fram kærur á hendur tíu einstaklingum vegna ummæla sem þau telja að falli með skýrum hætti undir 233. grein a. almennra hegningarlaga. Ákvæðið kveður meðal annars á um að hatursorðræða í garð hinsegin fólks sé refsinæm.


Í lok september bárust Samtökunum ‘78 bréf lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þess efnis að embættið hefði ákveðið að vísa öllum átta kærunum sem heyra undir embættið frá án rannsóknar þar sem þær þættu ekki líklegar til sakfellis. Samtökin ‘78 kærðu allar þær ákvarðanir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til ríkissaksóknara þann 7. október 2015. Í rökstuðningi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu til ríkissaksóknara, sem settur var fram í tilefni af fyrrgreindum kærum samtakanna, kemur fram að lögreglustjórinn telji að ummælin falli öll undir ákvæði íslenskra laga um tjáningarfrelsi.


Með afstöðu sinni til kæra Samtakanna ‘78 hefur ríkissaksóknari hins vegar tekið undir það sjónarmið Samtakanna ´78 og lögmanns þeirra, Bjargar Valgeirsdóttur hdl., að rannsaka þurfi hvort ummælin séu refsiverð samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði almennra hegningarlaga. Meðal annars með hliðsjón af því að heimilt sé að takmarka tjáningarfrelsi einstaklinga vegna réttinda annarra til að njóta friðhelgis einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Ákvarðanir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að vísa málunum frá án rannsóknar eru því allar felldar niður og er lögreglustjóranum gert skylt að hefja rannsókn á því hvort hin kærðu ummæli teljist refsinæm.


Samtökin ´78 líta á ákvörðun ríkissaksóknara sem áfangasigur í málinu. Ummælin eru sérlega gróf að mati samtakanna og til þess fallin að vega að rétti og öryggi hinsegin fólks. Mikilvægt er því að fá úr því skorið eftir leiðum dómstóla hvort slík orðræða teljist refsiverð.

|

Sagan sýnir okkur að það fennir fljótt í spor minnihlutahópa. Þeir eru fámennir og oftast uppteknir við að berjast fyrir tilverurétti sínum, og þar af leiðandi vill oft hjá líða að saga þeirra sé skráð. Því fögnum við því innilega að dr. Íris Ellenberger hlaut nýlega styrk frá Jafnréttissjóði til að rannsaka félagið Íslensk-lesbíska og með því sögu og réttindabaráttu íslenskra lesbía á síðustu áratugum 20. aldarinnar. Í tilkynningu frá sjóðnum segir að rannsóknin bæti við vanrækt fræðasvið innan íslenskrar akademíu og sé sú fyrsta sinnar tegundar hérlendis. Þannig sé hún einnig mikilvæg fyrir jafnréttisumræðu samfélagsins í heild. 

Við fögnum því heilshugar að þessi saga verði skrásett og hlökkum til að lesa hana og læra af henni til framtíðar!

 

|

Þau ánægjulegu tíðindi bárust í vikunni að Kittý Anderson, formaður Intersex Íslands, og Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir fyrrum fræðslustýra Samtakanna ´78 og núverandi fjölmiðlafulltrúi Trans Íslands hefðu hlotið fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar í ár. Viðurkenningin er veitt fyrir óþrjótandi baráttu og kynningu á réttindum og málefnum trans- og intersex fólks. Trans Ísland og Intersex Ísland eru bæði aðildarfélög að Samtökunum ´78. Við óskum Kittý og Uglu til hamingju með viðurkenninguna og erum sammála Siðmennt um að þær séu svo sannarlega vel að henni komnar. 

|

Fyrsta sunnudag í mánuði verða fjölskyldumorgnar í nýrri félagsmiðstöð Samtakanna´78 að Suðurgötu 3. Fyrsti hittingurinn verður því sunnudaginn 1. nóvember. Hittumst með börnin og spjöllum, leikum og borðum saman. Allir koma með eitthvað smá á morgunverðarhlaðborð.Frábær vettvangur til að hitta aðra foreldra og börn í hinsegin fjölskyldum. 
Þennan fyrsta sunnudag væri frábært ef einhverjir gætu tekið með sér eitthvað af leikföngum. Það er víst lítið til af svoleiðis í húsnæðinu enn sem komið er ;)

Hlökkum til að sjá ykkur!

Félagsmiðstöðin er aðgengileg fyrir fólk með hreyfihömlun. 
 

|

Alla fimmtudaga er opið hús að Suðurgötu 3 frá kl. 20-23. Öll mjög velkomin, alltaf heitt á könnunni! Næsta fimmtudag, 29. október, verður listamannaspjall og leiðsögn um sýninguna HINSÝN sem er í Gallerí ´78 um þessar mundir. Hún er samsýning 14 hinsegin listamanna. Sýningingunni HINSÝN er ætlað að varpa ljósi á myndlist hinsegin fólks á Íslandi árið 2015. Hérlendis starfar stór hópur listamanna sem passar undir hinsegin regnhlífina. Nokkrir listamannanna hafa mikla reynslu af sýningahaldi á meðan aðrir hafa láið lítið fyrir sér fara. Við undirbúng sýningarinnar var lögð mikil áhersla á að efna til samræðu milli milli reyndra og óreyndra listamanna og að skapa öruggt rými og hvetjandi andrúmsloft til að gera listamennina sýnilega með röð sýninga sem teygja sig inn í framtíðina.

Á listamannaspjallinu og leiðsögninni þann 29 október næstkomandi segja listamennirnir frá sjálfum sér og verkum sínum auk þess sem fjallað verður um list hinsegin listamanna í víðu samhengi.

Forsíðumyndin hér að ofan er eftir einn af listamönnum HINSÝNAR, Öldu Villiljós.

|

Við segjum með gleði frá því að ráðgjafaþjónustan okkur hefur fengið öflugan liðsstyrk. Það er Erna Á. Mathiesen lögfræðingur hdl. sem mun sinna lögfræðiráðgjöf til félagsfólks okkar. Hjá henni verður hægt að fá viðtalstíma án endurgjalds vegna lögfræðilegra álitaefna. Hægt er að koma með hvert það málefni sem félagsmaður óskar eftir aðstoð með en aðstoð Ernu fellst í að leiðbeina um þau lagalegu úrræði sem standa einstaklingi til boða að íslenskum rétti og innan stjórnsýslunnar. Þar með fellst ráðgjöf hennar ekki í lögmannsstörfum fyrir einstaka félagsmenn heldur í ráðgjöf um fyrstu skref og aðstoð við að meta hvaða rétt fólk á. Ef málin eru metin svo að þörf sá að viðameiri vinnu eða málarekstur býður Björg Valgeirsdóttir hjá DIKA lögmönnum félagsfólki sérkjör.

Hægt er að panta tíma hjá Ernu í gegnum skrifstofu félagsins á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í síma 552 7878.

Dæmi um úrlausnarefni eru: 

  • Réttur í samskiptum við stofnanir, t.d. Þjóðskrá, Sýslumenn eða Tryggingastofnun.
  • Réttur í skilnaðarmálum
  • Réttur í forsjármálum
  • Mat lagt á hvort um stærra mál er að ræða sem þarfnast dómsmáls
|

Samtökin ´78 hafa undanfarið verið í viðræðum við fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar um með hvaða hætti væri farsælast að standa að hinseginfræðslu í grunnskólum bæjarins. Drög voru gerð að samningi og er það okkur mikil ánægja að fræðslunefnd bæjarins hafi nú samþykkt að vísa þeim drögum til bæjarstjórnar til umfjöllunar þar.

Fræðslan gerir ráð fyrir að allt starfsfólk grunnskólanna fái ítarlega fræðslu um hinsegin málefni, þ.e.a.s. um kynhneigð, kynvitund og málefni intersex fólks. Að auki munu allir 8. bekkingar fá heimsókn frá jafningjafræðurum samtakanna þar sem farið verður yfir helstu hinsegin hugtökin og rætt hvernig unglingar geta verið góðir bandamenn hinsegin unglinga. Þá er einnig farið í það hvert þau geta snúið sér ef þau vilja ,,koma út úr skápnum". Jafningjafræðararnir eru ungt fólk í kringum tvítugt og eru því mikilvægar fyrirmyndir fyrir unglingana. 

Við hlökkum til samstarfsins!

Sjá nánar hér

|

Samtökin ’78 telja að málsmeðferð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem felur í sér að kærunum er vísað frá án eiginlegrar rannsóknar, sé óvönduð. Ákvarðanir lögreglustjórans geti auk þess ekki byggst á málefnanlegum rökum og séu til þess fallnar að útiloka þá refsivernd sem fólgin er í 233. gr. a almennra hegningarlaga og er ætlað að ná til minnihlutahópa á borð við hinsegin fólk. Um leið sé útilokaður möguleikinn á því að innlendir dómstólar fái að eiga síðasta orðið um heimfærslu hinna kærðu ummæla undir títtnefnt lagákvæði almennra hegningarlaga. Samtökin telja með hliðsjón af því ótækt að lögreglustjóri beiti valdi sínu með þessum hætti.

|

Meira ...

Í ljósi hæstaréttar dóms þess efnis að vísa ætti tveimur hælisleitendum til Ítalíu sem féll föstudaginn 01.10.15 gefa Samtökin 78 frá sér eftirfarandi ályktun . Innanríkisráðherra hefur nýlega látið þau orð falla að ekki sé óhætt að senda hælisleitendur til Ítalíu og undrumst við því mjög að svo virðist sem vísa eigi þessum tveimur hælisleitendum aftur til Ítalíu þvert á yfirlýsingar Innanríkisráðherra.

|

Meira ...

BEARS ON ICE heldur upp á 11. starfsár sitt dagana 3. - 6. september. Viðburðurinn er eini hinsegin "men only" viðburðurinn á Íslandi en frá því að hann var fyrst haldinn árið 2005 hefur hann stækkað ár frá ári og í ár er von á  um 150 erlendum gestum á hátíðina. 

|

Meira ...

Síða 1 af 82