Síðast uppfært 13. mars 2015

Ný félagsmiðstöð að Suðurgötu 3

Nú standa yfir framkvæmdir við menningar- og þjónustumiðstöð Samtakanna '78 í nýju og björtu húsnæði á jarðhæð að Suðurgötu 3. Samtökin festu kaup á húsnæðinu árið 2014 og var meginmarkmiðið með kaupunum að auka aðgengi félagsfólks og annarra að samtökunum og gera þau sýnilegri.

Miklar og ófyrirséðar tafir við framkvæmdir

Framkvæmdir við húsnæðið hafa staðið yfir síðan í haust, en ýmislegt hefur tafið verkið. Ber þar helst að nefna ófyrirséðar tafir vegna úttekta, útgáfu byggingarleyfa og nýs samnings um eignaskiptalýsingu á eigninni. Einnig þurfti að leggjast í talsvert meiri framkvæmdir en upphaflega var áætlað, bæði til að mæta kröfum um gott aðgengi, en einnig til að endurnýja úr sér gengnar pípulagnir o.fl. Þá á eftir að komast fyrir leka á einum stað í húsnæðinu. Stjórn félagsins biðst afsökunar á þessum töfum og þakkar um leið félagsfólki fyrir auðsýnda þolinmæði. 

Góður gangur í framkvæmdum og stefnt á opnunarhóf í apríl

Þegar þetta er skrifað, 13. mars 2015, er farið að sjá fyrir endann á framkvæmdum. Öllu múrbroti, múrhúðun og vinnu við styrkingu á burðarvirki er lokið. Uppsetningu veggja er lokið og klæðning þeirra á lokastigi. Loftræstikerfi hefur verið sett upp. Innréttingar og hurðir eru í pöntun og nú fer í hönd vinna við fágang og málun veggja. Þá er eftir frágangur á snyrtingum, málningarvinna, vinna við rafmagn og lýsingu, lofta- og gólfefnafrágangur. Það er heilmikill frágangur eftir - en góður gangur í framkvæmdum. Það er því von stjórnar að hægt verði að efna til innflutningshófs í apríl og hefja formlega starfsemi á nýjum stað.

Öflugra starf með nýrri félagsmiðstöð

Félagsmiðstöðin verður heimili Samtakanna '78 og þeirra fjölmörgu starfs- og stuðningshópa sem starfa á vettvangi félagsins. Þar er fyrirsjáanleg ákveðin gerjun, t.d. með áætlunum um eflingu ungliðastarfs og hópa fyrir m.a. hinsegin útlendinga á Íslandi, hælisleitendur og flóttafólk. Eins er gert ráð fyrir því að fjölmörg sjálfstæð félög innan hinsegin samfélagsins hafi aðsetur hjá Samtökunum á Suðurgötunni, eins og þau höfðu áður á Laugavegi 3.

|