Síðast uppfært 13. mars 2015

Margvísleg ráðgjöf og stuðningur

Hjá félags- og sálfræðiráðgjöf Samtakanna ’78 er boðið upp á einstaklings-, para- og fjölskylduviðtöl og hópastarf. Ráðgjafarnir hafa mikla reynslu af því að ræða við samkynhneigða, tvíkynhneigða, transfólk og aðstandendur þeirra ásamt því að hafa fjölbreytta reynslu af vinnu með öllum aldurshópum bæði í einstaklings- og hópastarfi. 

Trúnaður og öryggi í viðtölum og hópastarfi

Boðið er upp á viðtal sem stendur í klukkustund í senn. Hver einstaklingur getur að jafnaði sótt 3-5 viðtöl án endurgjalds. Öll viðtöl og símtöl við ráðgjafa eða skrifstofu Samtakanna '78 eru trúnaðarmál. Einnig er boðið upp á lokað hópastarf sem er auglýst sérstakega áður en hópur fer í gang. Aðstandendum hinsegin fólks stendur þessi þjónusta einnig til boða.

Ráðgjafateymi: fjölbreyttur hópur reynslumikilla fagaðila

Hjá Samtökunum ´78 er starfandi teymi fagaðila sem sér um ráðgjöfina sem samtökin bjóða upp á. Ráðgjafar Samtakanna ´78 koma úr ólíkum áttum og hafa ólíka reynslu, bakgrunn og menntun. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa sérhæft sig í hinsegin málefnum. Þeir eru því vel í stakk búnir til að takast á við flestan þann vanda sem einstaklingar koma með auk þess að taka fullt tillit til kynhneigðar og/eða kynvitundar einstaklinga. Í teyminu eru:

  • Anna María Valdimarsdóttir, sálfræðingur (frá vori 2012)
  • Elísabet Þorgeirsdóttir, félagsráðgjafi (frá vori 2011)
  • Guðbjörg Ottósdóttir, félagsráðgjafi (að nýju frá 2013)
  • Matthías Matthíasson, sálfræðingur (frá vori 2013)
  • Sigríður Birna Valsdóttir, leiklistar- og fjölskyldumeðferðarfræðingur (frá vori 2009)
Hafðu samband - það er fyrsta skrefið!

Til að taka fyrsta skrefið og geta rætt um líðan sína og tilfinningar er gott að ræða við einhvern utan að komandi aðila, sem bæði hefur verið í sömu sporum og hefur einnig mikla reynslu af því að styðja við einstaklinga sem eru að takast á við kynhneigð sína og/eða kynvitund.  Hægt er að panta viðtal hjá ráðgjafa eða fá frekari upplýsingar um ráðgjöfina með því að hringja á skrifstofu Samtakanna78 í síma 552-7878 eða senda tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Einnig er hægt að hringja í vaktsíma ráðgjafar og koma þannig skilaboðum áleiðis til ráðgjafa, símanúmerið er 777-4278.

Nánari þjónustulýsing á félags- og sálfræðiráðgjöf Samtakanna ‘78:

Almennt um þjónustuna

Samtökin ´78, félag hinsegin fólks á Íslandi, bjóða upp á ráðgjöf í formi viðtalstíma. Bæði í gegnum síma og í eigin persónu, fyrir einstaklinga, fólk í samböndum og fjölskyldur. Hægt er að hafa samband við ráðgjafa símleiðis eða í gegnum tölvupóst. Ráðgjafarnir hitta skjólstæðinga sína í ráðgjafaherbergi í húsnæði Samtakanna ´78 (þeir hafa eitt herbergi til umráða). Skjólstæðingum stendur til boða að mæta án endurgjalds í þrjú til fimm skipti, en að þeim tímum loknum gefst fólki kostur á að mæta í viðtöl gegn greiðslu. Ráðgjafar Samtakanna ´78 benda einnig á aðra meðferðaraðila, telji þeir það eiga við - sem og ef fólk leitar eftir því.

Markmið með þjónustunni

Ráðgjöf Samtakanna ´78 er fyrst og fremst hugsuð fyrir hinsegin fólk og aðstandendur þeirra og er markmiðið að styðja þennan hóp og auka lífsgæði hans. Ráðgjöfin er öllum opin, félagsmönnum jafnt sem öðrum. Nær allir sem leita til ráðgjafa Samtakanna ´78 eiga það sameiginlegt að vera hinsegin eða aðstandendur hinsegin fólks. Flestir eru að takast á við mál sem tengjast kynhneigð eða kynvitund á einhvern hátt. Margir eiga við kvíða, þunglyndi og/eða félagslega einangrun að stríða og einnig geta verið vandkvæði í samskiptum við fjölskyldu og/eða annar vandi. Eins leita fagaðilar og stofnanir til ráðgjafanna um ráð og upplýsingar.

Notendur þjónustunnar

Mjög misjafnt er hver tilgangur fólks er sem leitar til ráðgjafanna. Sumir koma eingöngu vegna hinsegin mála hjá þeim sjálfum eða einhverjum nákomnum, á meðan aðrir leita til ráðgjafanna vegna annarra mála samhliða þeim, vitandi að þeim verður vel tekið og að hinsegin málefni munu ekki flækjast fyrir ráðgjöfinni.

Fólki getur þótt erfitt að leita til fagaðila og ræða sína kynhneigð og/eða kynvitund án þess að vera viss um að sá aðili hafi þekkingu á þessum málaflokkum. Samtökunum ´78 hafa borist fregnir frá félagsmönnum sem hafa leitað til ráðgjafa annars staðar og fengið ófullnægjandi þjónustu vegna vanþekkingar á hinsegin málefnum og jafnvel upplifað fordóma. Þetta getur m.a. birst í tilhneigingu meðferðaraðila til að taka ekki tillit til kynhneigðar og/eða kynvitundar. Einnig þekkist það að meðferðaraðili vilji alhæfa, tengja alla líðan við kynhneigð og/eða kynvitund og gera þessar breytur að aðalumræðuefni þótt þær séu það ekki og fólk sé að leita sér ráðgjafar til að ræða allt önnur mál. Einstaklingar sem leita til ráðgjafa hjá Samtökunum ´78 eru því að koma inn á öruggt svæði. Þar er kynhneigð og/eða kynvitund þeirra tekið sem sjálfsögðum og eðlilegum hlut og ekki lagt út af þeim breytum ef það á ekki við.

 

 

|